Ljósmyndari / Heiða Helgadóttir
Umsögn dómnefndar: Með úthugsaðri nálgun nær ljósmyndarinn að vinna afar vel úr krefjandi aðstæðum. Myndefnið er sláandi, jafnvel óþægilegt í huga margra, en án þess að draga neitt undan nær ljósmyndarinn samt að skapa ró og jafnvel hlýju. Sagan útskýrir og sýnir hluti sem getur verið erfitt að horfa á en vekur þó ekki óhug. Myndirnar svala ákveðinni forvitni og færa áhorfandann inn í kringumstæður sem fæstir þekkja af eigin raun en gerir það með smekklegum og fagmannlegum hætti.
Á horni Barónsstígs og Eiríksgötu stendur gamli Blóðbankinn. „Blóð er lífsgjöf“, segir í kjörorðum bankans sem hefur fært sig um set á Snorrabraut. Eftir stendur húsið gráa á Barónsstígnum og hefur öðlast nýja tilgang, en í kjallara þess húss dvelja þeir tímabundið sem látið hafa lífið af óútskýrðum ástæðum.
Pétur Guðmann Guðmannsson er einn af tveimur starfandiréttarmeinafræðingum á Íslandi. Öll tilfelli dauðsfalla sem Pétur fær inn á borð til sín eru óútskýrð. Tilgangur krufningar er því að komast að því hvernig dauðann bar að garði, hvort um slys, sjálfsvíg, manndráp eða náttúrulegan dauðdaga hafi verið að ræða.
„Að kunna á strúktúr líkamans, mér fannst það rosalega flott sem hugmynd. Eitthvað sem hefur bara sitt upphaf og sinn endi, mér fannst eitthvað elegant við það. Ef maður hefur áhuga á líffærafræði, öllum vöðvum, æðum, taugum, öllu, þá er þetta rétta starfið,“ segir hann kíminn.
Pétur reynir eftir bestu getu að tengjast ekki viðföngum sínum eða sögum þeirra persónulega. „Ef maður væri tilfinningalega blandaður í öll tilfellin myndi maður tæmast mjög fljótt, svo maður heldur sig kannski leynt og ljóst frá því og svo verður það einhvern veginn sjálfkrafa, þessi fjarlægð. Ég hefði ekki andlega efni á því að láta öll tilfellin íþyngja mér,“ segir hann. Fjarlægðin gerir það að verkum að manneskja geti orðið að líki og lík að viðfangi og þegar manneskjan er viðfang verður vinnan viðráðanleg. „Maður er að umgangast þessa manneskju á svo mikið öðruvísi hátt en maður myndi umgangast annað lifandi fólk. Það er einhver grundvallarafstöðumunur í aðstæðunum sjálfum.“
Pétur Guðmann leiðbeinir hér læknanema sem koma iðulega til hans. „Maður er ekki að lækna hér inni. Þetta er formfræði, þetta er formfræðirannsókn. Maður er að skoða, það er starfið. Maður er að skoða, maður er að lýsa og maður er að túlka, ekki lækna.“ Segir Pétur.
Það eru tilfelli sem hann getur ekki sinnt. Hann getur til að mynda ekki krufið einhvern sem hann þekkir vel. Viðfangið yrði þá aftur að líki og lík að manneskju. „Þá væri það í forgrunni að þetta væri manneskja, að þetta væri ekta einhvern veginn. Maður býr sér til þetta kerfi sem er pínulítið fjarstæðukennt, til þess að geta umgengist þetta og til þess að verða ekki fyrir of miklum áhrifum. Það er einhver innbyggð afneitun sem á sér stað, einhver djúpsálfræðileg afneitun á dauðanum, að maður trúi því raunverulega að maður deyi. Krufning er svo mikil opinberun, hún sýnir manni að maður er á endanum spendýr, að svona sé þetta og svona er maður að innan,“
„Þegar ég er að kryfja menn á mínum aldri, tiltölulega unga, sem deyja annaðhvort skyndidauða eða fyrir eigin hendi, það snertir í mér streng og fær mig til að hugsa út í mitt eigið líf.“
„Samskiptin eru engin og þar af leiðandi eru tengslin engin. Þessi manneskjulegu tengsl sem maður nær að mynda við næstum alla sem maður mætir, jafnvel afgreiðslufólki í búðum sem maður mætir einungis í stutta stund. Það eru svona míkró tengsl, manneskja við manneskju. Í krufningarsalnum eru engar forsendur fyrir því og ég held að það sé í raun heppilegt að maður geti haldið sig frá því.“ Honum tekst í flestum tilfellum að mynda slíka faglega fjarlægð en ekki öllum. Sú staða hefur komið upp að Pétur hefur þurft að kryfja manneskjur sem hann hefur séð í lifanda lífi, sem hann man eftir. Þá veikist varnarkerfið, bráðnauðsynlega varnarkerfið.
„Ég hef enga trú á því að ég deyi frekar en mjög margir. Bara eins og fólk er oft. Fólk gengur ekki um í þessari trú almennt um að það muni einhvern tíma deyja, og ég er eins. Ég sé mig ekki fyrir mér liggjandi á borðinu í kjallaranum á Barónsstíg.“
Texti: Alma Mjöll Ólafsdóttir
Ljósmyndari/ Vilhelm Gunnarsson
Eldgosið í Geldingadölum við Fagradalsfjall var fyrsta eldgosið á Íslandi sem drónar voru komnir í almennings eign og var sú tækni nýtt til hins ýtrasta hjá mörgum.
Ljósmyndari/ Styrmir Kári
Séra Óskar H. Óskarson er sóknarprestur í Hrunaprestakalli. Hann er einn af fáum prestum sem enn heldur í fornar hefðir og stundar sauðfjárbúskap á kirkjujörðinni.
Óskar að gefa kindum fóður í lok sauðburðar. Búskapurinn nýtist vel í starfi hans sem sveitaprestur. Gott spjall um hrútaskránna opnar ýmsar dyr í sveitum landsins.
Skrifstofu prestsins er að finna í kjallara prestseturins. Þar kennir ýmissa trúarlegra grasa og greinilegt að það er setið lengi við skriftir ef marka má vel nýtta stólinn.
Hendur fjárbóndans grípa hér um prestkragan áður en haldið er til messu þennan sunnudaginn.
Séra Óskar H. Óskarson er sóknarprestur í Hrunaprestakalli. Sem saman stendur af fjórum sóknum í Hrunamannahreppi og Skeiða-og Gnúpverjahreppi.
Óskar í Hruna fylgir 6 fermingarbörnum til kirkju á sólríkum vordegi þegar sóttvarnartakmörkunum hefur verið lyft nægilega mikið til að hægt sé að ferma.
Sex fermingarbörn fermd í Hrunakirkju í Maí 2021.
Kveðjustund fyrir utan Hrunakirkju eftir vel heppnaða fermingu.