Ljósmyndari / Þorkell Þorkelsson
Hér gefur á að líta svipmyndir frá kvöldvakt á deildum A6 og A7 í Fossvogi sem að öllu jöfnu eru lungnadeild og smitsjúkdómadeild, en voru í faraldrinum sérútbúnar fyrir Covid19-sjúklinga. Á báðum deildum hefur verið mikill viðbúnaður í faraldrinum alvarleika ástandsins, en þar starfa samtals hátt í 150 manns á þrískiptum vöktum allan sólarhringinn. Sérstaklega mikilvægt er að halda vöku sinni að næturlagi þegar færri úrræði eru til staðar þegar eitthvað kemur upp á. Álagið á starfsemi Landspítala hefur verið mikið síðan í upphafi árs 2020 og spítalinn lengst af starfað á hættustigi. Þar eru allar hendur á dekki til að bregðast við farsóttinni sem geysar. Alla starfsorku hinna 6.000 starfsmanna spítalans hefur þurft til að spítalinn geti verið sá hornsteinn íslenskrar heilbrigðisþjónustu sem honum er ætlað að vera. Það hefur tekist með samstilltu átaki starfsfólks sem stendur vaktina og hugar að velferð skjólstæðinga allan sólarhringinn allt árið um kring.
Umsögn dómnefndar: Einlæg og falleg frásögn af kvöldvakt á Landspítalanum í miðjum heimsfaraldri. Ljósmyndarinn færir okkur heim sem fáir hafa aðgang að. Myndaröðin er heildstæð og sterk frásögn en jafnframt getur hver mynd staðið sér. Vel ljósmynduð sería við krefjandi aðstæður á erfiðum tímum.
Ljósmyndari/ Golli/Kjartan Þorbjörnsson
Söngvakeppnin 2020 heppnaðist frábærlega. Svo vel í raun að sigurvegarinn, hinn geysivinsæli Daði Freyr var álitinn sigurstranglegur í Eurovision keppninni í Rotterdam. Sú keppni var þó aldrei haldinn.
Íva undirbýr atriði sitt baksviðs.
Daði Freyr og Gagnamagnið voru gríðalega vinsæl hjá öllum aldurshópum. Svo vinsæl að margir spáðu því að þau myndu vinna aðalkeppnina í Rotterdam.
Strákarnir í hljómsveitinni Dimmu gerðu allt til að halda í við Daða Frey. Stebbi Jak söngvari hitar upp fyrir lokalagið.
Stemningin á lokakvöldinu var frábær og klappstýrurnar Gunni og Felix þurftu lítið fyrir því að hafa.
Hljómsveitin Hatari sem unnið hafði keppnina árið áður mætti með risa barnakór og tók lagið.
Sigurvegaranum fagnað og hann strax orðinn heimsfrægur.
Ljósmyndari/ Heiða Helgadóttir
Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg. Húsið, sem eitt sinn tók á móti gestum á ferðalagi sínu um eyjuna Ísland, tekur nú einungis við fólki smituðu af COVID-19 sem þarf að dvelja þar í einangrun.
Nýr gestur á leið uppá herbergi. Um leið og gesturinn gengur inn í hús er hann innilokaður í tvær vikur.
Gylfi Þór Þorsteinsson var ráðinn til þess að búa til og stýra því úrræði sem nú heitir Farsóttarhúsið. Fyrstu þrjá mánuði starfsins bjó Gylfi á hótelinu og var á vakt allan sólarhringinn. Nú fer hann heim á milli vakta en síminn hans hringir stöðugt dag og nótt.
Guðlaug Elín Bjarnardóttir lítur til himins glöð með að vera laus úr einangrun, hún upplifir frelsi í fyrsta skipti í fjórtán daga.
Áslaug, Gylfi og Guðný í mat. Þau mega ekki sitja við sama borð í matartímanum.
Guðný og Áslaug starfskonur, fara hér með hádegismat uppá herbergi til gesta.
Vinkonurnar Katrín Mist og Lára Mist heilsa upp á vinkonu sína, Ernu Margréti, í gegnum glugga. Erna Margrét er á sjötta degi í einangrun.
„Ghostbusters!” Heyrist kallað útum glugga er þessir lögreglumenn gengu upp Rauðarárstíginn eftir að hafa fylgt smituðum einstaklingi á farsóttarhúsið.
Guðjón Örn Sigtryggsson hefur starfað á farsóttarhúsinu síðan í vor. Hér er hann uppgefinn eftir erfiða kvöldvakt.