Ljósmyndari / Kristinn Magnússon
Útkall barst vegna bruna í íbúðarhúsnæði á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu og var allt tiltækt lið sent á vettvang. Mikill eldur logaði í húsinu og bjargaði slökkvilið nokkrum úr logandi húsinu í gegnum glugga. Aðrir komust út af sjálfsdáðum, en tveir þurftu að stökkva út um glugga. Sex voru fluttir á slysadeild og þrír létust í brunanum. Kveikt var í húsinu og einn maður var ákærður fyrir verknaðinn.
Umsögn dómnefndar: Sterk frásögn í einum ramma af stórri frétt. Vel uppbyggð mynd sem segir margar sögur í einu. Hver einasti hluti myndarinnar hefur tilgang og minnir hún á frásagnarmálverk. Myndin sýnir vel alvarleika atburðarins og þær gríðarlega erfiðu aðstæður sem sköpuðust í eldsvoðanum.
Ljósmyndari/ Kristinn Magnússon
Þrír unglingsdrengir voru um borð í bifreiðinni. Einum drengjanna tókst að komast upp úr höfninni af sjálfsdáðum en kafarar náðu hinum drengjunum tveimur úr bílnum. Sá fyrstnefndi var útskrifaður af sjúkrahúsi daginn eftir atvikið en hinir tveir lentu á gjörgæslu og var ástand þeirra alvarlegt og fóru þeir þaðan á Barnaspítala Hringsins.
Ljósmyndari/ Eggert Jóhannesson
Tveir menn lentu í snjóflóði í vestanverðum Móskarðshnjúkum og grófst annar þeirra í flóðinu og lést. Björgunaraðilar undirbúa aðgerðir.
Ljósmyndari/ Sigtryggur Ari
Mótmæli við innaríkisráðuneytið til stuðnings Maní, 17 ára transdrengs frá Íran, sem til stóð að vísa úr landi.
Ljósmyndari/ Anton Brink
Félagsmenn Eflingar sem komnir eru í ótímabundið alsherjar verkfall, efndu til samstöðu- og baráttufundar í Iðnó. Svo var gegnið undir lúðraþyt lúðrasveitar verkalýðsins yfir í ráðhús Reykjavíkur.
Ljósmyndari/ Eggert Jóhannesson
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi almannavarna
Ljósmyndari/ Heiða Helgadóttir
„Þau tímamót hafa orðið að sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra tillögu um samkomubann. Þetta er í fyrsta skiptið í lýðveldissögunni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi þar sem tilkynnt var um samkomubann frá 15. mars til 12. apríl.
Ljósmyndari/ Kristinn Magnússon
Ljóðaflutningur í Þjóðleikhúsinu á Covid tímum. Aðeins einn áhorfandi mátti njóta á staðnum en viðburðinum var einnig streymt.
Ljósmyndari/ Hákon Björnsson
COViD-19 faraldurinn hefur legið eins og mara yfir heimsbyggðinni allri síðasta árið og herjar enn á þjóðir heimsins.
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af áhrifum kórónuveirunnar ógurlegu en mikil hræðsla greip um sig meðal almennings þegar fregnir bárust af því að hún hefði borist til landsins í febrúar á síðasta ári.
Veiran kallaði á viðbrögð íslenskra stjórnvalda og þar skipti öllu skjót og fumlaus viðbrögð. Hér sést heilbrigðisstarfsmaður taka sýni en skimanir stóðu þeim til boða sem töldu sig vera smitaða af veirunni.
Ljósmyndari/ Þorkell Þorkelsson
Starfslið Landspítala telur rétt um 6.000 manns á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu og stoðþjónustu. Landspítali starfar á yfir tuttugu stöðum í borginni í meira en hundrað byggingum. Flestar þeirra eru vel við aldur og löngu hættar að svara þeim kröfum sem heilbrigðisþjónusta á 21. öld gerir. Þetta má t.d. glöggt sjá á lyftum í spítalanum sem eru svo þröngar að við eðlilegar aðstæður er áskorun að koma sjúklingum í sjúkrarúmi ásamt lámarks búnaði milli hæða. COVID-húddið svokallaða rétt kemst inn í lyfturnar ásamt starfsfólki. Eftir flutning sem þennan þarf að sótthreinsa lyftuna og alla leið sjúklingsins hátt og lágt. Í faraldrinum hefur starfsfólk spítalans staðið vaktina langt út fyrir það sem starfsskyldur þess krefjast.
Ljósmyndari/ Þorkell Þorkelsson
Í kórónuveirufaraldrinum hefur nokkrum sinnum þurft að flytja sjúklinga með COVID-19 frá gjörgæsludeild Landspítala Fossvogi á gjörgæsludeildina við Hringbraut til að dreifa álagi. Mikill viðbúnaður er á spítalanum vegna þessara flutninga. Notað er sérstakt einangrunarhylki, sem gjarnan er kallað „húdd“ af fagfólki, og þannig tryggt að smitaðir einstaklingar smiti ekki aðra við flutning. Enn fremur varnar hylkið því að sjúklingar sem eru veikir fyrir smitist við flutning milli deilda eða stofnana. Sérstaklega er gætt að öryggi sjúklinga við flutningana með þar til gerðum öryggisbúnaði svo sem loftflæðis- og loftgæðanemum, festingum á hylkinu við notkun og öryggisbeltum fyrir sjúklinginn. Einnig er öryggi þeirra sem vinna með hylkið tryggt. Húddin uppfylla öryggisstaðla til notkunar á sóttvarnardeildum, í sjúkrabifreiðum, flugvélum og þyrlum. Spítalinn brá á það ráð að fá flutningabíl til að flytja sjúkling í húddi milli gjörgæslnanna í Fossvogi og við Hringbraut. Með þeim hætti var hægt að flytja sjúklinginn, lækningabúnaðinn og starfsfólkið í einni ferð.
Ljósmyndari/ Vilhelm Gunnarsson
Kári Stefánsson var áberandi á árinu, enda fróður um margt og Íslensk erfðagreining í forystuhlutverki við raðgreiningu veirunnar. Hann átaldi stjórnvöld fyrir að koma ekki á fót farsóttastofnun og gagnrýndi vangaveltur um afléttingu strangra aðgerða á landamærunum. Þá tryggði hann aðkomu DeCode að skimuninni fyrir Covid-19 á Íslandi, sem reyndist mikil blessun í ljósi þess hversu illa opinbera heilbrigðiskerfið var tækjum búið.
Ljósmyndari/ Kristinn Magnússon
Guðni Th forseti íslands mætir Guðmundi Franklin mótframbjóðanda á rúv
Ljósmynari/ Kristinn Magnússon
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair klórar sér í hausnum yfir ástandinu
Ljósmyndari/ Valgarður Gíslason
Fjölmiðlafólk fyllti ganga Héraðsdóms Reykjavíkur og vann saman í kös með fartölvur í kjöltunni. Viðfangsefni fréttanna, Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja,
fylgdist með framvindunni yfir axlir Stígs Helgasonar, fréttamanns RÚV. Á meðan lagði Erla Bolladóttir á ráðin með lögmanni sínum, Ragnari Aðalsteinssyni
Ljósmyndari/ Valgarður Gíslason
Mál Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja gegn Seðlabankanum fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Helgi Seljan fréttamaður Rúv kom sér vel fyrir nálægt Þorsteini til að fylgjast með málinu.
Ljósmyndari/ Golli - Kjartan Þorbjörnsson
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir nýtt fjármálafrumvarp fyrir blaðamönnum
Ljósmyndari/ Valgarður Gíslason
Verkið sem Skiltamálun Reykjavíkur og vinir vörðu í að mála á vegg við Sjávarútvegshúsið fékk að standa í rúman sólarhring áður en menn vopnaðir háþrýstidælum hreinsuðu það af veggnum í gær. Verkið sýndi sömu spurningu og brunnið hefur á vörum fjölda manns undanfarnar vikur, mánuði og ár: Hvar er nýja stjórnarskráin? Hins vegar tóku undirskriftir á vefnum nystjornarskra.is kipp eftir hreinsunina.
Ljósmyndari/ Eggert Jóhannesson
Húsið Breiðablik færðist tugi metra eftir að aurskriða úr hlíðum ofan við Seyðisfjörð feykti því með sér.
Ljósmyndari/ Eggert Jóhannesson
Miklar tilfinningar einkenndu andartökin eftir að stór aurskriða féll á byggð á Seyðisfirði. Frá skriðusvæðinu hljóp fólk í faðm ættingja og vina. Á þessum tímapunkti var óttast mjög um afdrif fólks.
Ljósmyndari/ Eggert Jóhannesson
Fyrstu myndir eftir risavaxið skriðufall á Seyðisfirði sýndu þá gríðarlegu eyðileggingu af henni hlaust. Á myndinni má sjá starfsfólk Landhelgisgæslunnar skoða aðstæður.
Ljósmyndari/ Vilhelm Gunnarsson
Gríðarmiklar aurskriður fóru gegnum Seyðisfjarðarbæ í desember. Tvær skriður féllu úr Botnum 15. desember og í kjölfarið voru nokkur hús rýmd vegna ofanflóðahættu. Fljótlega var ljóst að um yfirstandandi ástand var að ræða, enda mikil rigning, og hættustigi var lýst yfir. Hinn 18. desember féll gríðarstór skrifða á bæinn og litlu mátti muna að illa færi.
Ljósmyndari/ Vilhelm Gunnarsson
Eins og svo oft áður á þessu ári var ljósmyndurum fjölmiðlana meinaður aðgangur þegar fyrstu heilbrigðisstarfsmenn voru bólusettir vegna Covid-19.